LISTAFÓLK
HAMMONDHÁTÍÐAR 2025
NANNA

Nanna Bryndís Hilmarsdóttir er tónlistarkona úr Garðinum. Hún á að baki langan feril af lagasmíðum og tónlistarflutningi
Nanna byrjaði snemma að semja og koma fram með eigið efni og árið 2010 stofnaði hún ásamt vinum sínum hljómsveitina Of Monsters and Men. Þau gáfu út sína fyrstu breiðskífu, My Head is an Animal árið 2011 og á eftir kom hraður uppgangur og röð tónleikaferðalaga sem skilaði sveitinni miklum vinsældum um allan heim. Í kjölfarið gáfu þau út plötuna Beneath the skin (2015), Fever dream (2019) og smáskífuna Tíu (2022) ásamt heimildarmynd sem ber sama nafn.
Undanfarin ár hefur Nanna einblínt á eigið efni, en hún gaf út plötuna How to start a garden í maí 2023 við góðar undirtektir og fylgdi henni eftir með tónleikaferðalagi um Ameríku og Evrópu ásamt fjölda tónleika á Íslandi þar sem ræturnar liggja. Plötunni hefur verið lýst sem einlægri og draumkenndri. Á plötunni blandast saman melankólía og von, og hún virkar eins og ferðalag inn í hugarheim listakonunnar, þar sem hún vinnur úr fortíðinni og horfir fram á veginn.
Í dag leggur Nanna lokahönd á fjórðu breiðskífu Of Monsters and Men.
Nanna hefur unnið upp á síðkastið með Rakel og Salóme Katrínu sem einnig koma fram sama kvöld á Hammondhátíð.
Nanna kemur fram á fimmtudagskvöldi Hammondhátíðar 2025, þann 24. apríl.
Meðlimir:
Nanna Bryndís Hilmarsdóttir - söngur og gítar
Tómas Jónsson - hammond og synthar
Ása Dýradóttir - bassi
Magnús Trygvason Eliassen - trommur
SALÓME KATRÍN

Salóme Katrín Magnúsdóttir er tónlistarkona frá Ísafirði. Hún flutti til Reykjavíkur haustið 2015 og hóf nám við heimspekideild HÍ en komst fljótlega að því að tónlistin ætti hug hennar allan. Hún kvaddi því háskólann og hóf tónlistarnám við Tónlistarskóla FÍH og útskrifaðist þaðan vorið 2020.
Síðan þá hefur Salóme gefið út sína eigin tónlist, komið fram á ótal tónleikum bæði hérlendis og erlendis og unnið með fjölda tónlistarfólks. Nú starfar hún sem tónlistarflytjandi og lagahöfundur og leggur stund á nám í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands.
Salóme hefur unnið upp á síðkastið með Rakel og Nönnu sem einnig koma fram sama kvöld á Hammondhátíð.
Salóme Katrín kemur fram á fimmtudagskvöldi Hammondhátíðar 2025, þann 24. apríl.
Meðlimir:
Salóme Katrín - söngur og gítar
Tómas Jónsson - hammond og synthar
Ása Dýradóttir - bassi
Magnús Trygvason Eliassen - trommur
RAKEL

Rakel Sigurðardóttir er fædd og uppalin á Akureyri. Hún hóf fiðlunám sex ára gömul við Tónlistarskólann á Akureyri og jazz söngnám síðar meir. Árið 2015 flutti hún til Reykjavíkur og hélt áfram tónlistarnámi við tónlistarskóla FÍH og útskrifaðist þaðan vorið 2020.
Árið 2021 gaf Rakel frá sér sína fyrstu stuttskífu, Nothing Ever Changes og ári seinna gaf hún, ásamt tónlistarkonunum Salóme Katrínu og Söru Flindt (DK), út splittskífuna While We Wait, en platan hlaut tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunana sem plata ársins.
Ásamt því að skapa og flytja sína eigin tónlist kemur Rakel fram með ýmsu tónlistarfólki en þarmá nefna Nönnu (Of Monsters And Men), Kaktus Einarsson og Axel Flóvent.
Um þessar mundir er Rakel að leggja lokahönd á sína fyrstu plötu í fullri lengd.
Rakel hefur unnið upp á síðkastið með Nönnu og Salóme Katrínu sem einnig koma fram sama kvöld á Hammondhátíð.
Rakel kemur fram á fimmtudagskvöldi Hammondhátíðar 2025, þann 24. apríl.
Meðlimir:
Rakel Sigurðardóttir
Tómas Jónsson - hammond og synthar
Ása Dýradóttir - bassi
Magnús Trygvason Eliassen - trommur
SÚELLEN

SúEllen er ein lífseigasta hljómsveit Íslandssögunnar en hún var stofnuð 1983 í Neskaupstað.
Blómaskeið hljómsveitarinnar var frá 1987-1994 en það má segja að alla tíð síðan hafi hljómsveitin og lög þeirra lifað góðu lífi. Nægir þar að nefna smelli eins og Elísu, Konu, Ferð án enda og fleiri lög sem lifað hafa með þjóðinni.
SúEllen hefur átt góða spretti í tónleikahaldi og útgáfu á safnplötu og plötu með nýju efni hin seinni ár. Nú í ár er fyrirhugað tónleikahald og útgáfa á nýju lögum.
Liðsskipan hljómsveitarinnar hefur verið eins frá 1988 utan þess að hljómborðsleikari sveitarinnar Ingvar lundberg lést árið 2022 og er hans sárt saknað. Jóhann Ingvason spilar nú á hljómborðið. Jóhann var áður í Skriðjöklum, Hljómsveit Gunnars Þórðarsonar, Hunangi, Sixites og fleiri sveitum. Einnig má geta þess að Jóhann var fyrsti styrkþeginn úr minningarsjóði Karls heitins Sighvatssonar sem mjög oft er nefndur þegar Hammondorgel ber á góma.
SúEllen kemur fram á föstudagskvöldi Hammondhátíðar 2025, 25. apríl.
Meðlimir:
Guðmundur R. Gíslason - söngur
Steinar Gunnarsson - bassi og söngur
Bjarni Halldór Kristjánsson - gítar og söngur
Jóhann Geir Árnason - trommur
Jóhann Ingvason - hammondorgel
FM BELFAST

Þetta hefur verið draumur okkar lengi.
Við fengum ákveðinn forsmekk að FM Belfast á Hammondhátíð 2024 þegar föstudagskvöldinu sem bar yfirskriftina Prinsinn heim, var lokað með DJ-setti frá FM Belfast. Það var gaman. En það er ekkert í líkingu við að fá fullmannaða FM Belfast í fullum herskrúða!
Það verður einfaldlega allt tryllt þar sem þau koma fram!
Og það er það sem við ætlum að bjóða uppá þegar þau mæta á Hammondhátíð. Trylling.
FM Belfast spilar á föstudagskvöldi Hammondhátíðar 2025, þann 25. apríl.
Meðlimir:
Lóa Hjálmtýsdóttir
Örvar Smárason
Borko
Hermigervill
Ívar Pétur Kjartansson
Árni Rúnar Hlöðversson
PÁLL ÓSKAR

Það er varla til það mannsbarn á Íslandi sem ekki þekkir til Páls Óskars.
Hann hefur verið ein okkar skærasta poppstjarna frá því að platan Stuð kom út árið 1993. Eftir hann liggja ótal sólóplötur og nánast óteljandi slagarar. Páll Óskar er einn af fáum íslenskum tónlistarmönnum sem er jafnvígur á stuðtónlist og ballöður, enda er leitun að öðrum tónlistarmanni sem höfðar til jafn breiðs hóps hlustenda. Samstarf hans við Milljónamæringana er eftirminnilegt sem og áralangt samstarf við hörpuleikarann Moniku Abendroth.
Við hlökkum til að sjá hvaða úrval laga Páll Óskar mun bjóða okkur uppá á lokatónleikunum í Djúpavogskirkju, en það er víst óhætt að fullyrða að það lagaval verði fjölbreytt.
Páll Óskar kemur fram ásamt Tomma Jóns og Ómari Guðjóns á lokatónleikum Hammondhátíðar 2025 í Djúpavogskirkju, sunnudaginn 27. apríl, kl. 14:00.
Meðlimir:
Páll Óskar Hjálmtýsson
Tómas Jónsson - Hammondorgel
Ómar Guðjónsson - gítar
JÓNAS SIG
OG RITVÉLAR FRAMTÍÐARINNAR

Hafi verið kominn tími á eitthvað í heimi Hammondhátíðar, þá er það að fá Jónas Sigurðsson og Ritvélar framtíðarinnar aftur til okkar.
Þessi ótrúlega mulningsvél orku og stemmningar kom síðast fram á Hammondhátíð árið 2015 og við teljum að æskilegt sé að láta ekki líða meira en 10 ár á milli þess að bjóða gestum hátíðarinnar upp á þessa dæmalausu snilld.
Jónas og Ritvélarnar hafa verið að koma fram uppá síðkastið eftir nokkurra ára pásu og það er ekki ofsögum sagt að þeim hafi verið vel tekið, í kjaftfullum tónleikasölum hvar sem þau koma.
Það verður enginn svikinn sem mætir á tónleika með Jónasi og Ritvélunum. Einhvern tímann líktum við tónleikum þeirra við trúarlega upplifun. Við getum allavega lofað því að þið komið út af tónleikunum sem betri manneskjur. Við erum jafnvel til í að fullyrða að það sé vísindalega sannað!
Jónas Sig og Ritvélar framtíðarinnar koma fram á laugardagstónleikum Hammondhátíðar 2025, þann 26. apríl.
Meðlimir:
Jónas Sig - söngur og gítar
Tómas Jónsson - Hammondorgel og synthar
Ómar Guðjónsson - gítar
Guðni Finnsson - bassi
Rósa Guðrún Sveinsdóttir - saxófónn og söngur
Arnar Gíslason - trommur
Steinar Sigurðarson - saxófónn
Snorri Sigurðarson - trompet